Sagan okkar

A.Wendel ehf er fjölskyldufyrirtæki sem hefur í rúmlega 60 ár (frá árinu 1957) byggt rekstur sinn í kringum innflutning og sölu á vélum og tækjum til verklegra framkvæmda. Sérstök áhersla er lögð á að þjónusta fyrirtæki sem sinna vegalagningu, jarðvinnuverktöku, mannvirkjagerð, gatnahreinsun og vetrarþjónustu. Viðskiptavinirnir koma úr röðum ríkis, borgar og sveitarfélaga ásamt ýmsum iðnaðarmönnum, verktakafyrirtækjum og byggingavöruverslana. Núverandi aðsetur starfseminnar er að Tangarhöfða 1 í Reykjavík en þar starfa 6 manns. Stjórnendur eru Jón Sverrir Wendel og Haraldur Friðrik Wendel.  

Wendel fjölskyldan

Fyrirtækið dregur nafn sitt af stofnandanum Adolf Wendel (1920-2004).

Mynd af Adolf Wendel stofnanda A.Wendel ehf
Adolf Wendel

Móðir hans Luise Wendel var Þýsk en fjölskylda hennar kom frá Mechlenburg-héraðinu í austurhluta Þýskalands. Faðir Adolfs, Harald Wendel, var þýsk-íslenskur og rakti jöfnum höndum ættir sínar til Dýrafjarðar og sambandsríkis Slésvíkur-Holtsetalands norðan við Hamborg.  Árið 1945 byggði Wendel fjölskyldan sér þríbýlishús að Sörlaskjóli 26 þar átti stórfjölskylda Wendels eftir að byggja sér myndarlegt og líflegt heimili þriggja ættliða. Afi Harald og amma Luise bjuggu á miðhæðinni og fjölskylda Adolfs á þeirri efstu. Árið 1957 varð heimilið einnig að aðsetri nýs fyrirtækis sem Adolf stofnaði ásamt eiginkonu sinni Matthildi Jónsdóttur. 

Upphaf starfseminnar

Um miðbik sjötta áratugarins starfaði Adolf hjá nýstofnuðum íslenskum aðalverktökum á Keflavíkurflugvelli. Þar innleiddi Bandaríski herinn alls kyns nýjungar og tækjabúnað til verklegra framkvæmda. Þarna sá Adolf fyrir sér óplægðan akur sem átti eftir að leggja grunninn nýju fyrirtæki, A.Wendel hf sem hóf starfsemi árið 1957.  Í upphafi fólst starfsemin einungis í innflutningi og sölu á beygjuvélum og klippum fyrir steypustyrktarjárn og í kjölfarið sigldu síðan stærri tæki til veglagninga og jarðvinnu eins og þjöppur, valtarar og malbikunarvélar.  Alveg fram til 1993 stýrði Adolf rekstri A.Wendel frá Sörlaskjóli 26 þar sem synir hans, Jón og Friðrik hófu störf sín við hlið föður síns.  þetta sama ár fluttist starfsemin í eigið húsnæði að Sóltúni 1.  Á fimmtíu ára afmæli fyrirtækisins árið 2007 fluttist það í stærra og hentugra húsnæði að Tangarhöfða 1 þar sem það er enn til húsa.

Myndin sýnir Sóltún 1 í Reykjavík þar sem verslun A.Wendel ehf var staðsett frá árinu 1995 til 2007
Myndin sýnir Sóltún 1 í Reykjavík þar sem verslun A.Wendel ehf var staðsett frá árinu 1995 til 2007.
 

Brautryðjendur

Fyrirtækið A.Wendel varð að sannkölluðum brautryðjanda nýjunga í orðsins fyllstu merkingu og innleiddi t.d. á sínum tíma sérhæfða vélasamstæðu sem nýtt var m.a. til að steypa Keflavíkurveginn og vesturlandsveg um Kollafjörð. 

tæki frá A.Wendel við lagningu Keflavíkurvegar árið 1963. Ljósmynd: Sveinn Þormóðsson

Á myndinni má sjá tæki frá A.Wendel við lagningu Keflavíkurvegar árið 1963. Ljósmynd: Sveinn Þormóðsson.

 

Adolf var ötull við að heimsækja vörusýningar og vegtækniráðstefnur erlendis einkum í þýskalandi og fór þá oft fyrir hópi íslenskra verkfræðinga og verktaka.  Með tímanum bættust við fleiri og stærri tæki til að mynda kranabílar, byggingakranar, gatnahreinsibílar og tæki til jarðvinnu eins og jarðborar og lofþjöppur svo eitthvað sé nefnt.

Á myndinn hér fyrir neðan má sjá þegar verið var að prófa nýjan holræsahreinsibúnað í Suðurgötunni í Reykjavík. Búnaðurinn O.BRIAN-SEWER CLENNERS frá Chicaco USA var fluttur inn af A.Wendel árið 1960 og er myndin tekin í kringum þann tíma.

Mynd frá prófun á holræsahreinsibúnaði árið 1960

Mynd frá prófun á holræsahreinsibúnaði árið 1960

 

Innflutningur á búnaði til vetrarþjónustu hófst árið 1964 en sá þáttur starfseminnar hefur verið mjög öflugur upp frá því.  Þar er helst um að ræða salt- og sanddreifara til hálkueyðingar á vegum og flugvöllum ásamt snjóruðningstækjum og öflugum snjóblásurum af ýmsum stærðum.  Miklar framfarir hafa átt sér stað við hálkueyðingu á vegum á þessum tíma og hafa starfsmenn A Wendel verið duglegir að kynna þessar nýungar.  Meðal annars var og er enn oft á tíðum farið á stórar véla- og tækja sýningar erlendis.

Hópur manna í fylgd stofnanda fyrirtækisins Adolfs Wendel á sýningu BAUMA í kringum 1970

Á myndinni má sjá hóp manna í fylgd stofnanda fyrirtækisins Adolfs Wendel á sýningu BAUMA í kringum 1970.

 

Starfsmenn A. Wendel hafa ávallt tamið sér að hlúa vel að sinni sérþekkingu og reynt að efla hana í formi hentugra heildarlausna. Þannig hafa tæki til vegalagninga og vetrarþjónustu einnig skapað þörfina fyrir alls kyns umferðaröryggisbúnað eins og öryggiskeilur, blikkljós og vinnusvæðamerkingar.  Sala á tækjum til niðurlagningar og yfirborðsmeðferðar á steinsteypu er snar þáttur í starfsemi fyrirtækisins.  Einnig búnaður til framleiðslu og niðurlagningar á malbiki svo sem malbiksstöðvar, malbikunarvélar, valtarar og búnaður til viðgerða á yfirborði vega.